Monday, November 24, 2008

Hafðu fiðrildaáhrif og komdu í leikhús!


Hafðu fiðrildaáhrif og komdu í leikhús!


Fimmtudaginn 27. nóvember verður haldin gala sýning í Iðnó til styrktar UNIFEM á Íslandi (Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna) á nýja íslenska leikverkinu Dansaðu við mig, eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann í uppfærslu Leikhúss andanna. Miðaverð er 3.200 kr. – ATHUGIÐ TAKMARKAÐ MIÐAFRAMBOÐ – og rennur 1.000 kr. af hverjum seldum miða óskipt til samtakanna. Innifalinn í verðinu er appelsínugulur kokkteill, en það er litur UNIFEM á Íslandi. Ragnheiður Gröndal mun stíga á stokk áður en sýningin hefst og flytja lag. Gestir eru hvattir til að sýna lit og skreyta sig með einhverju appelsínugulu. Tónlistin úr Dansaðu við mig er frumsamin íslensk nýsköpun úr smiðju tónlistarkonunnar Jarþrúðar Karlsdóttur, en 500 krónur af hverjum disk sem selst þetta kvöld mun einnig renna til UNIFEM. Kokkteillinn hefst 19:30 og sýningin sjálf kl. 20:00.


Iðnó býður einnig upp á glæsilegan þríréttaðan matseðil fyrir þá sem hafa áhuga á að fara út að borða fyrir leiksýninguna. Maturinn kostar 4.900 krónur, en frekari upplýsingar er að finna á http://www.idno.is/
Fiðrildakveðja,
Leikhús andanna og Unifem á Íslandi

Tuesday, November 18, 2008

Umsagnir um sýninguna

Fjölmiðlar

“Ekki veit ég um ykkur en sjálf hef ég upplifað það nokkrum sinnum að hlusta á manneskju segja mér langa sögu – af eigin reynslu eða annarra – af svo mikilli snilld að það varð í senn skáldskapur og leikhús... List söguleikhússins er að segja sögu af einlægni og með ekta sögumannsáherslum. Lokka áheyrandann inn í söguna með engum brögðum öðrum en töfrum raddar sinnar. Þetta tókst Þrúði með miklum ágætum... Það var merkilegt að finna úti í sal hvernig hjarta manns fór að slá hraðar og þyngra af samúð með þessari einmana stúlku...sýningin snart mann djúpt – og minnti raunar á eina eftirminnilegustu sýningu undanfarinna ára, Dýrlingagengið sem Viðar Eggertsson setti upp í Hafnarhúsinu á vegum EGG-leikhússins fyrir einum sex árum.”
- Silja Aðalsteinsdóttir, Tímarit Máls og Menningar

“...Hrósa ber þeim sem hafa starfað að umgerðinni, ljósum en þó alveg sérstaklega leikhljóðum og tónlistareffektum sem mynduðu einkar fallegt samspil við leikinn... texti Þórdísar Elvu er vel unninn, persónulýsingarnar áhugaverðar... Hún er tívmælalaust komin í hóp þeirra leikskálda sem stóru leikhúsin eiga að hlúa að...”
- Jón Viðar Jónsson, DV

“Þórdís Elva hefur áður sýnt að hún hefur burði til þess að takast á við þetta form af alvöru og það mun hún án efa gera í framtíðinni...”
- Þorgerður E. Sigurðardóttir, Víðsjá

Ýmsir:

“Skemmtilegar sögur, flott flétta og frábærir leikarar! Takk aftur fyrir mig.”
- Þorbjörg Sæmundsdóttir

“Einstaklega vel heppnuð frumsýning á Dansaðu við mig í Iðnó í kvöld. Frábær texti eftir Þórdísi. Flutningurinn var þannig að aldrei slaknaði á. Hvet alla til þess að mæta.”
- Sigtryggur Ari Jóhannsson

“Frábært leikrit, flott flétta og Þrúður og Höski léku bæði ferlega vel. Mæli svo sannarlega með Dansaðu við mig. Til hamingju!”
- Linda Vilhjálmsdóttir

“Allir í Iðnó!”
- Aino Freyja Järvelä, formaður Sjálfstæðu Leikhúsanna

Wednesday, October 29, 2008

Kynngingarmyndband

Kynningarmyndband Leikhúss Andanna vegna leikritsins Dansaðu við mig eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachman.

Friday, October 17, 2008

Friday, September 26, 2008


Heillandi kvöldstund í Iðnó

Dansaðu við mig verður frumsýnt í Iðnó föstudaginn 24. október 2008 kl. 20:00.

Miðasala verður í Iðnó og víðar.

Iðnó nýtur sérstöðu sem leikhús að ýmsu leyti. Það er elsta leikhús landsins og byggingin sjálf hélt upp á 110 ára afmæli sitt árið 2007. Auk þess er boðið er upp á mat fyrir sýninguna í einu fallegasta húsi í hjarta borgarinnar. Verð á matseðli og miðaupplýsingar má finna á http://www.idno.is/ eða í síma: 562 9700.

Leikhús andanna og Iðnó bjóða því í sameiningu upp á heillandi kvöldstund með ljúffengum mat og hugljúfri sýningu um hvað það er að vera manneskja.

Meðlimir Leikhúss andanna