Hafðu fiðrildaáhrif og komdu í leikhús!
Fimmtudaginn 27. nóvember verður haldin gala sýning í Iðnó til styrktar UNIFEM á Íslandi (Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna) á nýja íslenska leikverkinu Dansaðu við mig, eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann í uppfærslu Leikhúss andanna. Miðaverð er 3.200 kr. – ATHUGIÐ TAKMARKAÐ MIÐAFRAMBOÐ – og rennur 1.000 kr. af hverjum seldum miða óskipt til samtakanna. Innifalinn í verðinu er appelsínugulur kokkteill, en það er litur UNIFEM á Íslandi. Ragnheiður Gröndal mun stíga á stokk áður en sýningin hefst og flytja lag. Gestir eru hvattir til að sýna lit og skreyta sig með einhverju appelsínugulu. Tónlistin úr Dansaðu við mig er frumsamin íslensk nýsköpun úr smiðju tónlistarkonunnar Jarþrúðar Karlsdóttur, en 500 krónur af hverjum disk sem selst þetta kvöld mun einnig renna til UNIFEM. Kokkteillinn hefst 19:30 og sýningin sjálf kl. 20:00.
Iðnó býður einnig upp á glæsilegan þríréttaðan matseðil fyrir þá sem hafa áhuga á að fara út að borða fyrir leiksýninguna. Maturinn kostar 4.900 krónur, en frekari upplýsingar er að finna á http://www.idno.is/
Fiðrildakveðja,
Leikhús andanna og Unifem á Íslandi